Erlent

Schröder kveður Jafnaðarmannaflokkinn

Schröder á fundi jafnarðarmanna í dag.
Schröder á fundi jafnarðarmanna í dag. MYND/AP

Það var tilfinningaþrungin stund þegar Gerhard Shcröder, fráfarandi kanslari Þýskalands, kvaddi félaga sína í þýska jafnaðarmannaflokknum í Karlsruhe í dag um leið og þeir greiddu atkvæði um stjórnarsáttmálann sem gerður var við Kristilega demókrata og Kristilega sósíalsambandið fyrir helgi.

Shcröder sagði að á sjö ára valdatíma sínum hefði Þýskalandi orðið betri staður til að búa á og að það væri nú mun nútímalegra og opnara fyrir heiminum en fyrir valdatíð hans. Franz Müntefering, formaður Jafnaðarmannaflokksins, hrósaði Schröder fyrir afrek sín og við það vöknaði Schröder um augun en hann sló einnig á létta strengi við góðar undirtektir flokksfélaga sinna sem hylltu hann með lófaklappi í tíu mínútur.

Schröder hverfur úr embætti í næstu viku og við starfi hans tekur Angela Merkel, leiðtogi Kristilegra demókrata, sem verður fyrst kvenna til að gegna þessu valdamikla embætti. Schröder, sem er 61 árs, hefur ekki ákveðið hvað hann hyggst taka sér fyrir hendur en hann hefur þó lýst því yfir að hann vilji hverfa aftur til lögfræðistarfa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×