Erlent

Einn látinn eftir aurskriður í Noregi

Húsið sem aurskriðan hreif með sér tættist í sundur eins og þessi mynd ber með sér.
Húsið sem aurskriðan hreif með sér tættist í sundur eins og þessi mynd ber með sér. MYND/AP

Einn maður hefur fundist látinn eftir að skriða féll á hús í Aasane í Björgvin í Vestur-Noregi í dag, en þar er nú mikið úrhelli. Jafnvel er búist við að úrkomumet verði sett í dag.

Maðurinn sem lést vann ásamt sex öðrum að endurbótum á húsinu þegar aurskriðan reið yfir og hrifsaði húsið með sér, en sexmenningarnir björguðust allir. Þrír þeirra komust út af sjálfsdáðum eftir að skriðan féll en björgunarsveitir björguðu þremur. Meiðsli þeirra munu ekki vera alvarleg. Þá var þremur bjargað úr öðru húsi sem varð fyrir skriðu annars staðar í Hörðalandsfylki og hafa fjölmörg hús verið rýmd vegna hættu á frekari skriðum.

50 bílar eru fastir í jarðgöngum í fylkinu eftir að skriða féll við þau en enginn mun hafa slasast þar. Björgunarmenn vinna að því að koma þeim burtu og er búist við að það taki mestan hluta dagsins. Gríðarlegt úrhelli hefur verið í Björgvin og næsta nágrenni og gera veðurfræðingar ráð fyrir allt að 200 milímetra úrkomu í dag sem yrði úrkomumet í Noregi.

Auk þess eru 25-30 vegir lokaðir í Sogni og Fjörðunum, fylkinu norður af Hörðalandi, vegna skriðufalla þar í dag og ræður lögregla fólki þar um slóðir frá því að leggja í ferðalög ef það kemst hjá því. Þá hafa lestar- og rútusamgöngur milli Oslóar og Björgvinjar legið niðri út af vatnsveðrinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×