Erlent

CIA reyndi að leyna dauða fanga

MYND/AP

Bandaríska leyniþjónustan CIA reyndi að leyna dauða íraksks fanga, sem lét lífið við yfirheyrslur í Abu Ghraib fangelsinu í Írak þar sem honum var haldið án dóms og laga.

Frá þessu greinir bandaríska fréttatímaritið Time en blaðið komst yfir fjölda skjala vegna málsins, þar á meðal krufningarskýrslu.

Sýna þær að líkið var limlest og geymt í frysti til að leyna kringumstæðunum við dauða hans. Maðurinn sem hét al-Jamadi var handtekinn í nóvember árið 2003 vegna gruns um að hann hefði átt þátt í sprengjuárás á höfuðstöðvar Rauða krossins í Bagdad þar sem 12 manns létu lífið.

Réttarmeinafræðingur, sem fór yfir krufningarskýrsluna, sagði hann hafa verið kæfðan með poka og síðan hent í frystinn eins og fyrr segir.

Myndir af glottandi bandarískum hermönnum við lík al-Jamadis voru meðal þeirra sem birtust úr Abu Ghraib fangelsinu á síðasta ári og ollu hneykslun og reiði um allan heim. Ekki hafa fengist upplýsingar um hvort einhverjir verði yfirheyrðir eða ákærðir vegna málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×