Erlent

ESB leggur Frökkum lið vegna vargaldar

Mynd/AP

Óeirðir héldu áfram í París í nótt, nítjándu nóttina í röð. Tryggingafélög í Frakklandi meta tjón vegna þeirra á fimmtánda milljarð króna.

Þrátt fyrir að ríkisstjórnin segi óeirðirnar vera í rénum, var kveikt í skólum og í bílum í þremur stórborgum í Frakklandi í nótt. Að sögn lögreglunnar var slökkt í alls 284 bílum sem er heldur minna en í fyrrinótt þegar kveikt var í 374 bílum. Alls hafa því á níunda þúsund bíla verið eyðilagðir síðustu þrjár vikur og er tjónið metið á fimmtánda milljarð íslenskra króna að sögn tryggingafélaga þar í landi.

Framkvæmdastjóri Evrópusambandsins segir sambandið vera tilbúið til að leggja Frökkum lið vegna ástandsins og segir 3,7 milljörðum króna verða varið til uppbygginga. Þá standi einnig til að verja einum 70 milljörðum króna til uppbyggingar á svæðum þar sem innflytjendur búa en þeir hafa verið afar ósáttir við afskiptaleysi stjórnvalda í garð innflytjenda og það litla sem fyrir þá hefur verið gert. Atvinnuleysi meðal þeirra er mun meira en annarra Frakka og eru laun aðeins fjörtíu prósent af launum annarra í landinu.

Sérfræðingar segja líklegt að Frakkar hafi á þessum tæpu þremur vikum sem mótmælin hafa staðið yfir vaknað og geri sér nú betur grein fyrir alvarleika málsins og þeim lélegu skilyrðum sem innflytjendur hafa búið við. Þá hefur ríkisstjórnin sagt að úrbóta sé að vænta þó ekki hafa frekari skil á því hvernig eða hvað verði gert, verið gerð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×