Erlent

Megirðu brenna í helvíti, Zarqawi

„Megirðu brenna í helvíti, Abu Musab al-Zarqawi", hrópuðu þúsundir Jórdana á götum Amman í dag þar sem þeir mótmæltu hryðjuverkaárásum al-Qaida í fyrrakvöld. Þessi reiði Jórdana virðist hafa komið leiðtogum hryðjuverkasamtakanna á óvart því þeir sendu frá sér aðra yfirlýsingu í dag þar sem reynt var að réttlæta sjálfsmorðssprengingarnar sem urðu nær sextíu manns að bana.

Al-Zarqawi, einn þekktasti leiðtogi al-Qaida samtakanna, er Jórdani sjálfur og hann og samtökin hafa átt nokkuð marga stuðningsmenn meðal Jórdana. Það breyttist snarlega þegar árásir voru gerðar á þrjú alþjóðleg hótel í höfuðborginni Amman í fyrrakvöld. Einkum eiga menn erfitt með að skilja hvað saklausir gestir í brúðkaupsveislu hafi til saka unnið en ein sprengjan var sprengd í miðri veislu á Radisson SAS hótelinu. Brúðguminn, Ashraf al-Akhras, segir að þeir sem beri ábyrgð á hryðjuverkunum séu ekki múslímar því þau hafi ekkert með íslam að gera. Múslímar séu samheldnir og finni til samkenndar og drepi ekki hvern annan.

Jórdanir eru sem sagt æfir og bendir flest til þess að al-Qaida hafi misreiknað viðbrögð þeirra, en í yfirlýsingum á vefsíðu sem talin er á þeirra vegum lýstu samtökin ábyrgð á hendur sér en í dag fylgdi svo önnur, lengri útskýring, þar sem reynt var að réttlæta árásirnar með því að hótelin hefðu verið miðstöðvar svika, hórdóms og vestrænnar spillingar.

Á fyrrnefndri vefsíðu segir að árásarmennirnir hafi verið fjórir Írakar, þar af ein hjón. Þetta hefur ekki fengist staðfest en tólf manns hafa verið handteknir í tengslum við árásirnar.

Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, flaug til Amman í dag og fundaði með Abdullah II konungi og notaði tækifærið til að skora á þjóðir heims. Hann sagðist endurtaka ákall sitt til aðildarríkja S.þ. um að samþykkja alhliða sáttmála gegn hryðjuverkum. „Það er hægt og það er nauðsynlegt að þessi sáttmáli verði samþykktur fyrir árslok," sagði Annan.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×