Erlent

Rice í óvæntri heimsókn í Írak

Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, kom í óvænta heimsókn til Mósúl í Írak í morgun, en hún er að hefja ferðalag um Miðausturlönd. Aðspurð um ástæðu heimsóknarinnar sagði Rice að hún vildi hvetja stjórnmála- og trúarhópa til að leggja niður deilur og vinna að einingu innan landsins, en þingkosningar eru fyrirhugaðar í Írak eftir um mánuð.

Rice mun í ferð sinni heimsækja Barein, Sádi-Arabíu, Ísrael og sjálfsstjórnarsvæði Palestínumanna þar sem hún mun ræða við stjórnir landanna um umbætur á sviði efnahags- og stjórnmála. Þá er búist við því að hún þurfi að svara erfiðum spurningum um meint leynifangelsi Bandaríkjanna víða um heim, en Bandaríkjastjórn hefur hingað til hvorki neitað né játað fullyrðingum um tilvist þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×