Erlent

Stofna lúxusdagheimili í Danmörku

Lúxusdagheimili fyrir börn hinna frægu og ríku munu að líkindum taka til starfa í Danmörku innan tíðar eftir að lögum um dagheimili þar í landi var breytt þannig að slíkur aðskilnaður verður mögulegur.

Ríka fólkið fær að greiða hærri vistunargjöld fyrir börn sín gegn því að þau fái meiri þjónustu og umgangist ekki venjuleg alþýðubörn. Formaður dagvistar barna í Danmörku segir við Jótlandspóstinn að fyrirspurnir frá ríku fólki séu þegar farnar að streyma inn en uppeldisfræðingar hafa af þessu áhyggjur. Þeir sjá fyrir sér að börn þeirra ríku verði fyrst aðkilin frá alþýðubörnum og síðan verði dönsk börn aðskilin frá börnum innflytjenda.

Í umræðunni í Danmörku er annars vegar talað um að ríku börnin verði á sér deildum á dagheimilum, sem nú þegar eru í rekstri, eða að lúxusdagheimili fyrir ríku börnin verði sér hönnuð og byggð frá grunni. Ekki liggur fyrir hvaða munaður verður í boði á nýju heimilunum sem ekki er í boði á venjulegu dagheimili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×