Erlent

Neyðarðagerðir virðast skila árangri

Slökkviliðsmenn slökkva eld í bíl í bænum Cenon, nærri Bordeaux í suðvestur-Frakklandi.
Slökkviliðsmenn slökkva eld í bíl í bænum Cenon, nærri Bordeaux í suðvestur-Frakklandi. MYND/AP

Þriðju nóttina í röð dró úr óeirðum í Frakklandi. Neyðaraðgerðir ríkisstjórnarinnar virðast ætla að skila tilætluðum árangri og þær falla vel í kramið hjá almenningi.

Í 38 hverfum, borgum og bæjum hefur lögregla nýtt sér heimildir til að setja á útgöngubann eða beita öðrum neyðaraðgerðum til að sporna við óeirðunum. Alls voru 155 manns handteknir í nótt og kveikt var í um 300 bílum sem er nærri helmingi minna en nóttina á undan. Sérstaklega hefur tekist að draga úr óeirðunum í París, en í nokkrum öðrum borgum Frakklands var ástandið slæmt í nótt. Þannig var heill skóli nánast lagður í rúst í Belfort í Austur-Frakklandi og í Lyon var rafmagnslaust um tíma eftir skemmdarverk glæpagengja.

Innanríkisráðherrann Nicola Sarkosy ætlar að standa við stóru orðin um að hart verði tekið á óróaseggjunum. Hann hefur farið fram á að 120 útlendingar sem hafa tekið þátt í óeirðunum verði tafarlaust reknir burt frá Frakklandi, jafnvel þó að þeir hafi landvistarleyfi.

Flestir Frakkar virðast ánægðir með harðar aðgerðir yfirvalda vegna óeirðanna. Í nýrri könnun blaðsins Le Parisien segjast þrír af hverjum fjórum styðja heimildir til útgöngubanns og nærri níu af hverjum tíu segja óeirðirnar með öllu ólíðandi.

Óeirðir í Belgíu og Þýskalandi héldu áfram í nótt og þó að þær séu ekkert í líkingu við lætin í París undanfarið telja sérfræðingar að þær eigi sinn þátt í því að gengi evrunnar hefur ekki verið lægra gagnvart dollarnum í meira en tvö ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×