Erlent

Vill slíta samstarfi við Sharon

Amir Peretz, nýkjörinn formaður Verkamannaflokksins í Ísrael, vill slíta ríkisstjórnarsamstarfi við Likud-flokk Ariels Sharons, forsætisráðherra landins. Hann mun hitta Sharon á sunnudag þar sem þeir ræða hvort kosningum í landinu verði flýtt vegna þessa.

Amir Peretz bar í gær nokkuð óvæntan sigur á Shimoni Peres í leiðtogakjöri ísraelska Verkamannaflokksins. Munurinn var aðeins tvö prósent en Amir Peretz mun engu að síður leiða flokkinn í næstu þingkosningum í Ísrael. Hann hefur nú í hyggju að slíta samstarfinu við Likud-bandalag Sharons og vill að þingkosningum verði flýtt, en þær eru fyrirhugaðar eftir ár.

Hinn nýi formaður er tiltölulega óþekktur á alþjóðavettvangi en sigur hans á Nóbelsverðlaunahafanum Peres þykir endurspegla óánægju flokksmanna með gengi flokksins eftir stórtap í síðustu kosningum árið 2003, en Verkamannaflokkurinn hafði lengi töglin og hagldirnar í stjórnmálum landsins. Þá er talið að margir flokksmenn séu andvígir stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum sem Amir Peretz segir að hafi leitt til þess að líf fátækrar Ísraelsmanna hafi versnað til muna.

Þessi tíðindi þykja veikja stöðu Ariels Sharons forsætisráðherra enn frekar en hann hefur sætt harðri gagnrýni í eigin flokki fyrir að fallast á að flytja landnema á brott úr byggðum á Gasaströndinni fyrr á árinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×