Erlent

Al-Qaida lýsir yfir ábyrgð á árásum í Amman

Lögreglumaður stendur fyrir utan Radisson SAS hótelið í Amman eftir árásina í gær.
Lögreglumaður stendur fyrir utan Radisson SAS hótelið í Amman eftir árásina í gær. MYND/AP

Hryðjuverkasamtökin al-Qaida segjast bera ábyrgð á þrem sjálfsmorðsárásum í Jórdaníu í gærkvöldi, sem urðu minnst 57 manns að bana. Landamærum landsins hefur verið lokað og víðtæk leit stendur yfir af mönnum sem tengjast árásunum.

Um þrjú hundruð manns eru sárir eftir árásirnar, sem voru gerðar á þrem hótelum í Amman, höfuðborg Jórdaníu með stuttu millibili. Fyrsta sprengjan sprakk á Grand Hyatt hótelinu laust fyrir klukkan sjö að íslenskum tíma. Aðeins fáeinum mínútum síðar var gerð árás á Radisson SAS hóteli skammt frá þar sem fjölmenn brúðkaupsveisla stóð yfir. Loks sprakk bifreið hlaðin sprengiefni fyrir utan Days-Inn hótelið skömmu síðar. Hótelin eru öll mjög vinsæl meðal vestrænna og ísraelskra ferðamanna.

Snemma í morgun lýstu al-Qaida samtökin í Írak tilræðinu á hendur sér. Í yfirlýsingu frá samtökunum, sem birtist á íslamskri heimasíðu, segir að hópur bestu árásarmanna samtakanna hafi verið sendur í verkefnið. Hótelin þrjú hafi orðið fyrir valinu vegna þess að þau séu bakgarður óvinarins og þá væntanlega átt við að þau sæki vestrænir og ísraelskir ferðamenn.

Jórdanir hafa lokað landamærum að landinu og víðtæk leit er hafin að mönnum sem tengjast árásunum. Bandaríkjastjórn bauð strax í gækvöldi fram aðstoð sína við rannsókn málsins og leitinni að þeim sem bæru ábyrgð á ódæðinu.

Starf liggur niðri í skólum og sjölmörgum fyrirtækjum í Jórdaníu í dag og þjóðarsorg hefur verið lýst yfir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×