Erlent

Þúsundir mótmæltu kosninganiðurstöðum í Bakú

Frá mótmælunum í Bakú í gær.
Frá mótmælunum í Bakú í gær.

Þúsundir manna gengu um götur í Bakú, höfuðborg Aserbaídjans, í gær til að mótmæla niðurstöðum þingkosninga á sunnudag. Þar fór flokkur Ilhams Alijevs forseta, sem farið hefur með völdin, með sigur af hólmi en stjórnarandstæðingar segja að svindlað hafi verið í kosningunum.

Ríkisstjórn landsins leyfði mótmælendum að láta í sér heyra í þrjá tíma í gær og gengu um 15 þúsund manns um Bakú, margir hverjir með appelsínu gula fána og skírskotuðu þannig til appelsínugulu byltingarinnar í Úkraínu sem gerð var eftir umdeildar kosningar. Hundruð lögreglumanna fylgdust með því að allt færi vel fram og hvöttu leiðtogar stjórnarandstæðinga mótmælendur til að fara heim þegar þrír tímar voru liðnir til að forðast átök við lögreglu.

Mótmælendur hafa boðað frekari mótmæli og segjast ekki hætta fyrr en kosningarnar hafi verið ógildar, en yfirvöld hafa aðeins fallist á að aftur skuli kosið í tveimur héruðum og að endurtalning fari fram í einu. Kosningaeftirlitsmenn frá Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, Evrópuráðinu og Bandaríkjunum hafa lýst því yfir að kosningarnar hafi ekki staðist kröfur um kosningar í lýðræðisríki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×