Erlent

Rannsakað hvernig fjölmiðlar fréttu af málinu

Gulfstream 5 þota CIA sem sögð er hafa verið notuð í fangaflutninga til Austur-Evrópu.
Gulfstream 5 þota CIA sem sögð er hafa verið notuð í fangaflutninga til Austur-Evrópu.

Rannsókn er hafin á fregnum um leynifangelsi bandarísku leyniþjónustunnar CIA. Tilgangurinn er að vísu ekki að komast að því hvort slík fangelsi séu til, heldur hvernig fjölmiðlar fengu veður af málinu.

Bandarískir ráðamenn hafa keppst við það undanfarna daga að undirstrika að farið sé að lögum við meðferð meintra og grunaðra hryðjuverkamanna. Þannig hafa þeir svarað fregnum af svokölluðum svörtum stöðum, leynifangelsum sem hermt er að leyniþjónustan CIA reki víðsvegar um heim, meðal annars í nokkrum löndum í Austur-Evrópu. Engin skýr svör hafa fengist um hvort fangelsin séu í raun og veru til og hvort vélar, sem sagðar eru ferja fanga meðal annars þangað, séu á ferð um heiminn á vegum skúffufyrirtækja CIA.

En í dag heyrðist loksins frá leyniþjónustunni. Yfirmenn hennar hafa farið þess á leit að dómsmálaráðuneytið hefji glæparannsókn á því hvernig upplýsingarnar gátu komist til fjölmiðla. Þó að áður hafi verið greint frá fangelsum í Afganistan og Taílandi mun það hafa farið mjög fyrir brjóstið á stjórnendum leyniþjónustunnar að einhver hafi komist á snoðir um fangelsin í Austur-Evrópu. Yfirvöld í Rúmeníu og Póllandi, þar sem fangelsin eru sögð vera, hafa að vísu neitað fregnunum en næsta víst má telja að leitin verði nú ákafari en fyrr.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×