Erlent

Bandaríkjaher segist hafa yfirbugað uppreisnarmenn í Qusayba

MYND/AP

Bandaríski herinn segist hafa náð að handtaka eða drepa alla uppreisnarmenn í borginni Qusayba við landamæri Sýrlands.

Aðgerðirnar í Kúsæba eru hluti af áhlaupi hersveita Bandaríkjamanna og Íraka á nokkrar borgir við landamæri Sýrlands. Um 180 uppreisnarmenn hafa verið handsamaðir í borginni síðan um helgina, þegar skipulögð áhlaup á vígi uppreisnarmanna hófust. Þá hafa tæplega fjörutíu uppreisnarmenn fallið í loftárásum og bardögum á jörðu niðri og eins hefur einn bandarískur hermaður týnt lífi.

En þó að tekist hafi að ráða bug á óöldinni í Qusayba er aðgerðunum við landamæri Sýrlands langt í frá lokið. Enn streyma uppreisnarmenn til Íraks frá Sýrlandi og búist er við stanslausum árásum á svæðinu þegar nær dregur þingkosningum, sem fara fram um miðjan desember.

Í morgun létust sjö írakskir lögreglumenn og níu manns særðust, í sjálfsmorðsárás í borginni Bakúba. Árásarmaðurinn keyrði bíl sínum að eftirlitsstöð lögreglu og sprengdi sig í loft upp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×