Erlent

Óeirðir færast í vöxt utan Frakklands

Slökkviliðsmenn við störf í Arras í Norður-Frakkalandi í morgun, en þar var m.a. kveikt í tveimur verslunum.
Slökkviliðsmenn við störf í Arras í Norður-Frakkalandi í morgun, en þar var m.a. kveikt í tveimur verslunum. MYND/AP

Útgöngubann og hert löggæsla skilaði tilætluðum árangri í París í nótt. Í öðrum borgum landsins og nokkrum borgum í Þýskalandi og Belgíu hafa óeirðir hins vegar færst í vöxt.

Mikið dró úr óeirðunum í París í nótt, eftir að ákveðið var að heimila útgöngubann og auka við mannafla lögreglunnar. Þó var kveikt í 190 bílum í borginni og sjötíu manns handteknir. Miðað við undanfarnar nætur telst nóttin í nótt friðsæl enda hefur verið kveikt í meira en þúsund bílum nokkrar nætur í röð.

En í öðrum borgum Frakklands jukust óeirðirnar í nótt. Í Lyon, Toulouse, Bordeux og Amiens héldu óróaseggir uppteknum hætti og þar logaði allt í óeirðum. Í Lyon þurfti að loka öllu lestarkerfi borgarinnar, eftir að Mólotov-kokteil var hent inni á lestarstöð. Í Toulouse var kveikt í fjölmörgum bílum og unglingar hentu heimatilbúnum sprengjum að fjölmennri sveit lögreglumanna, sem réð ekki neitt við neitt.

Tvær borgir hafa notfært sér heimild til að setja á útgöngubann, sem ríkisstjórn Frakklands samþykkti í gær. Borgin Amiens varð fyrst til að nýta sér þessa heimild og þar er öllum undir sextán ára aldri skylt að vera með fullorðnum utandyra. Þá hefur einnig verið sett bann við sölu bensíns og olíu til ungmenna í borginni. Í París gildir útgöngubann enn sem komið er bara í tveim úthverfum í suðurhluta borgarinnar.

Óeirðirnar í Frakklandi hafa færst til annarra landa og í Þýskalandi héldu ungmenni áfram að ganga berseksgang í nótt. Bæði í Berlín og Köln var kveikt í fjölmörgum bílum og lögregla þurfti ítrekað að hafa afskipti af hópum ungmenna sem létu öllum illum látum. Í Belgíu var það sama uppi á teningnum í nótt. Í Brussel, Lokeren, Ghent og Antwerpen var kveikt í bílum og strætisvögnum og aðferðirnar allar þær sömu og í París.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×