Erlent

Tvísýnt um örlög hryðjuverkafrumvarps í Bretlandi

MYND/AP

Bæði Gordon Brown, fjármálaráðherra Bretlands, og Jack Straw, utanríkisráðherra landsins, hafa verið kallaðir heim frá útlöndum til þess að taka þátt í mikilvægri atkvæðagreiðslu um umdeilt frumvarp bresku stjórnarinnar um varnir gegn hryðjuverkum sem bera á undir breska þingið í dag.

Ferð Gordons Browns, fjármálaráðherra Bretlands, til Miðausturlanda varð heldur endaslepp því skömmu eftir að hann kom til Tel Aviv í Ísrael í gær var hann kallaður aftur heim til að taka þátt í atkvæðagreiðslunni. Brown hugðist bæði heimsækja Ísrael og Palestínu á ferð sinni um Miðausturlönd og ræða við Ariel Sharon, utanríkisráðherra Ísraels, og Mahmoud Abbas, leiðtoga Palestínu og er búist við að hann haldi aftur til Miðausturlanda þegar atkvæðagreiðslunni er lokið.

Þá var Jack Straw utanríkisráðherra kallaður heim af fundi Evrópusambandsins og Rússa sem fram fer í Moskvu, en Bretar fara nú fyrir Evrópusambandinu.

Frumvarpið um varnir gegn hryðjuverkum er afar umdeilt í Bretlandi, ekki síst ákvæði um að lögreglu verði heimilað heimilað að halda grunuðum hryðjuverkamönnum í þrjá mánuði án þess að ákæra þá. Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, hefur sagt að ákvæðið sé mjög mikilvægt í baráttunni gegn frekari hryðjuverkaárásum í Bretlandi, en eins og kunnugt er létust rúmlega fimmtíu manns í tilræðum á fjórum stöðum í Lundúnum í júlí síðastliðnum. Samherjar Blairs, Straws og Browns í þingflokki Verkamannaflokksins eru hins vegar ekki jafnsannfærðir og búist er við að Blair og innanríkisráðherrann Clarke þurfi að verja stórum hluta dagsins til þess að sannfæra flokksfélaga sína á þingi um ágæti frumvarpsins.

Fari svo að frumvarpið verði fellt er breska stjórnin með varaáætlun, en það er frumvarp sem Janet Anderson, þingmanni Verkamannaflokksins og öflugum stuðningsmanni stjórnarinnar, er ætlað að leggja fram. Þar er tíminn sem lögregla má halda grunuðum hryðjuverkamönnum án ákæru tveir mánuðir í stað þriggja. Ef sú tillaga hlýtur heldur ekki náð fyrir augum þingsins gæti breska stjórni þurft að sættast á að varðhaldstíminn verði aðeins fjórar vikur, en tryggur meirihluti er fyrir þeirri tillögu á þinginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×