Erlent

CIA rannsakar upplýsingaleka um leynifangelsi

 

Bandaríska leyniþjónustan hefur hafið rannsókn á því hvernig dagblaðið Washington Post komst yfir upplýsingar um meint leynifangelsi Bandaríkjamanna í Austur-Evrópu. Leyniþjónustan hefur farið þess á leit að dómsmálaráðuneytið kanni hver hafi lekið upplýsingunum í Washington Post.

Blaðið greindi frá svokölluðum „svörtum reitum" í nokkrum Austur-Evrópulöndum, þar sem grunaðir hryðjuverkamenn væru í haldi. Ráðamenn í Bandaríkjunum hafa enn sem komið er neitað að tjá sig um hvort leynifangelsin séu til og hvort í þeim séu stundaðar pyntingar.

Síðast í gær sagði Condoleezza Rice utanríkisráðherra að Bandaríkjamenn ættu í óvenjulegu stríði og þeim bæri skylda til að verja sig, en vildi ekki tjá sig að öðru leyti. Stjórnvöld í Póllandi og Rúmeníu hafa þegar neitað því að umræddar fangabúðir séu í löndunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×