Erlent

Enginn möguleiki á sanngjörnum réttarhöldum

Einn verjenda í málaferlunum gegn Saddam Hussein, fyrrverandi forseta Íraks, var skotinn til bana og annar særðist þegar skotið var á bíl þeirra í Bagdad í dag. Mennirnir sem urðu fyrir skotárásinni voru verjendur samstarfsmanna Saddams. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ráðist er á lögmenn í liði verjenda því einn þeirra var skotinn til bana daginn eftir að málaferlin hófust í síðasta mánuði. Honum var rænt af skrifstofu sinni í Bagdad og fannst svo látinn síðar sama dag með skotsár á höfði. Talsmaður lögmanna Saddams og samstarfsmanna hans sagði nú síðdegis að enginn möguleiki væri á sanngjörnum réttarhöldum á meðan öryggi manna væri ekki tryggt. Þetta gilti um lögmenn jafnt sem dómara og vitni. Ætlunin var að réttarhöldunum, sem var frestað í síðasta mánuði, yrði framhaldið 28. nóvember en óvíst er hvort það verði raunin eftir skotárásina í dag. Saddam og sjö samstarfsmönnum hans er gefið að sök að hafa fyrirskipað morð á 150 sjítamúslimum eftir að reynt var að ráða Saddam af dögum árið 1982. Verði þeir fundnir sekir geta þeir átt yfir höfði sér dauðadóm.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×