Erlent

Ekki miklar breytingar á hryðjuverkafrumvarpi

MYND/AP

Breska ríkisstjórnin mun ekki gera veigamiklar breytingar á umdeildum hryðjuverkalögum sem leggja á fram á breska þinginu á morgun. Þetta segir Charles Clarke, innanríkisráðherra Bretlands. Búist hafði verið við að ríkisstjórnin myndi leggja fram málamiðlun um frumvarp vegna harðrar andstöðu við það í öllum þingflokkum en af því verður ekki.

Ríkisstjórnin leggur fram frumvarpið til þess að geta betur tekist á við hryðjuverkaógnina, en þau mál hafa verið í gagngerri endurskoðun í Bretlandi eftir hryðjuverkaárásirnar í Lundúnum í sumar. Innanríkisráðherrann Clarke lagði fram frumvarpið í síðustu viku en dró það til baka þegar í ljós kom að stór hluti þingmanna Verkamannaflokksins myndi greiða atkvæði gegn því og þar með yrði það fellt.

Bæði Clarke og Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, hafa síðan fundað með samherjum sínum í Verkamannaflokknum og telja sig nú hafa fengið nægan stuðning til að koma frumvarpinu í gegnum þingið.

Meðal þess sem þingmenn voru andsnúnir var ákvæði sem gerir lögreglu kleift að halda grunuðum hryðjuverkamönnum í þrjá mánuði án þess að ákæra þá. Mannréttindasamtök hafa einnig gagnrýnt ákvæðið en það verður ekki tekið út, segir Clarke. Í staðinn verður klausu skotið inn í frumvarpið þar sem kveðið er á um að lögin verði endurskoðuð eftir ár.

Meðal annarra ákvæða sem finna má í frumvarpinu eru bann við því að hvetja til eða dásama hryðjuverk, undirbúa hryðjuverk og að sækja hryðjuverkaþjálfunarbúðir auk þess sem hægt verður að sækja menn til saka í landinu fyrir árásir annars staðar í heiminum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×