Erlent

Pólskir tannlæknar til Svíþjóðar

Eins og sagt var frá í fréttum Bylgjunnar í gær telst það orðið til kosta meðal verkamanna á Austurlandi að kunna pólsku. Í framtíðinni gæti pólskukunnátta þó komið sér vel víðar.

Pólland var langfjölmennast þeirra 10 ríkja sem gengu í Evrópusambandið í maí í fyrra. Síðan þá hafa pólverjar verið áberandi á evrópskum vinnumarkaði. Helst hefur verið um að ræða verka- og iðnaðarmenn sem þegið hafa lægri laun og unað lengri vinnutíma. En nú sækja Pólverjar inn á fleiri svið þjónustu.

Í næstu viku opnar hér í Svíþjóð tannlæknastofa þar sem pólskir tannlæknar munu sjá um viðgerðir og viðhald tanna. Þjónusta þeirra verður helmingi ódýrari en nú þekkist auk þess sem opnunartími verður lengri. Hver og einn tannlæknir mun þó einungis verða tímabundið við störf og því ósennilegt er að hann sjái hvern sjúkling oftar en einu sinni. Aðstoðarmenn tannlæknanna munu síðan, auk þess að aðstoða þá við tannviðgerðir, þjóna starfi túlks.

Sænska tannlæknafélagið og Alþýðusambandið hafa áhyggjur af þessari nýju samkeppni, enda muni hún lækka laun tannlækna. Þá bendir tannlæknafélagið á að ör skipti á tannlæknum séu slæm fyrir sjúklinga og mikilvægt sé að tungumálaörðugleikar séu ekki fyrir hendi.

Hins vegar er bent á að þessi nýi möguleiki geri fleirum kleift að leita sér aðstoðar. Það sé enda vel þekkt að fólk hafi um árabil farið til Austur-Evrópulanda til að leita sér ódýrra tannlækninga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×