Erlent

Hermenn ákærðir fyrir misþyrmingar í Írak

MYND/AP

Fimm bandarískir hermenn í Írak hafa verið ákærðir fyrir að beita fanga harðræði nýlega. Frá þessu greinir Bandaríkjaher. Fimmmenningarnir eiga að hafa kýlt og sparkað í menn sem biðu þess að verða fluttir í fangelsi í landinu í byrjun september.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Bandaríkjamenn verða uppvísir að því að misþyrma föngum í Írak því í fyrra sætti Bandaríkjaher harðri gangrýni um allan heim vegna pyntinga og misþyrminga í Abu Ghraib fangelsinu nærri Bagdad. Níu hermenn hafa þegar verið sakfelldir fyrir aðild að þeim misþyrmingum.

Samkvæmt tölum sem birtar voru í síðustu viku halda Bandaríkjamenn hátt í 14 þúsund manns á nokkrum stöðum í Írak, þar af fimm þúsund í Abu Ghraib, en mannréttindasamtök hafa gagnrýnt að mörgum þeirra sé haldið svo mánuðum skiptir án þess að þeir séu ákærðir eða réttað yfir þeim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×