Erlent

Neita að hafa aðstoðað dauðafanga við flótta

Meðlimir þýskra samtaka sem berjast gegn dauðarefsingu, neita alfarið að hafa aðstoðað Charles Victor Thompson við að sleppa úr Houston fangelsi í Texas í síðustu viku. Thompson beið aftöku fyrir morð sem hann framdi árið 1998.

Thompson tókst að flýja úr Houston fangelsi í Texas á fimmtudag í síðustu viku, íklæddur borgaralegum fötum og án handjárna en hann þóttist vera lögmaður. Hann náðist þremur dögum síðar í Shreveport í Louisiana fylki, en honum hafði þá tekist að flýja um 320 kílómetra frá fangelsinu. Þýsk samtök voru grunuð um að hafa aðstoðað Thompson við flóttann en Petra E. Herrmann, leiðtogi samtakanna, heimsótti Thompson í Houston fangelsið degi áður en hann flúði. Samtökin eru yfirlýst baráttusamtök gegn dauðadómi en Herrmann hefur neitað öllum ásökunum um að samtökin hafi aðstoðað við flóttann.

Dauðadómur var staðfestur yfir Thompson viku áður en hann flúði. Hann hafði áður hlotið dauðadóm fyrir morð á fyrrverandi kærustunni sinni og þáverandi kærasta hennar árið 1998 en fyrri dómur var ógildur vegna tæknilegra galla. Thompson beið þess að vera fluttur aftur á dauðadeildina í Livingstonfangelsi í Texas.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×