Erlent

Maður látinn vegna óeirðanna í París

MYND/AP

Maður sem barinn var í óeirðum í úthverfi Parísar á föstudaginn var, lést af sárum sínum á sjúkrahúsi í dag. Frá þessu greindi innanríkisráðuneyti Frakklands. Maðurinn, sem var á sjötugsaldri, hafði legið í dái alla helgina, en hann er sá fyrsti sem deyr í óeirðunum sem staðið hafa yfir 11 kvöld í röð. Franska blaðið Le Parisien greinir frá því að ungmenni hafi ráðist á manninn fyrir utan heimili hans í úthverfinu Stains í norðurhluta Parísar og barið hann til óbóta.

Fátt bendir til þess að stjórnvöldum í Frakklandi sé að takast að lægja öldurnar í úthverfum Parísar og reyndar víðar um landið, en tíu lögreglumenn særðust í átökum við óeirðaseggi í gær, þar af tveir alvarlega. Þá var kveikt í 1400 bílum og yfir 400 manns handteknir í uppþotum víða um landið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×