Erlent

Hraðbankar peningalausir í Svíþjóð vegna verkfalls

Öryggisverðir í Svíþjóð eru enn í verkfalli eftir gróft rán á peningaflutningabíl Securitas norður af Gautaborg á fimmtudaginn. Flestir hraðbankar eru nú peningalausir og verslanir sitja uppi með mikið magn fjár.

Þrátt fyrir mikla leit af ræningjunum hefur hún hingað til verið árangurslaus. Öryggisfyrirtækin eiga nú í hádeginu að kynna sænska vinnueftirlitinu hvernig þau hyggjast auka öryggi starfsmanna sinna. Fyrst þá kemur í ljós hvort peningafluttningar hefjast hér að nýju. Samtök öryggisvarða krefjast fylgdar vopnaðrar lögreglu en lögregluyfirvöld telja þá kröfu óraunhæfa. Þá útilokar Securitas að vopna öryggisverði sína sem sjá umpeningafluttninga, en öryggisverðir þeirra bera þó vopn í sérstökum verkefnum.

Nær allir hraðbankar standa nú tómir og verslanir sitja uppi með mikið magn fjár. Verkfallið hefur haft mikil áhrif enda nota Svíar mikið peninga í viðskiptum. Kortanotkun hefur þó aukist mikið um helgina og verslanir heimila nú úttektir af kortum við viðskipti, nokkuð sem hefur lengi viðgengist á Íslandi.

Samtök verslunarinnar í Svíþjóð vilja að áframhald verði þar á enda myndi það minnka þörfina á hraðbönkum og verslanir myndu ekki liggja með mikið magn fjár eins og raunin er í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×