Erlent

Fujimori handtekinn í Chile

Alberto Fujimori, fyrrverandi forseti Perús, um borð í flugvél á leið til Chile þar sem hann var handtekinn.
Alberto Fujimori, fyrrverandi forseti Perús, um borð í flugvél á leið til Chile þar sem hann var handtekinn.

Alberto Fujimori, fyrrverandi forseti Perús, var handtekinn í morgun skömmu eftir að hann kom í óvænta heimsókn til Chile. Fujimori er eftirlýstur í heimalandi sínu vegna meintrar spillingar og mannréttindabrota í valdatíð sinni á árunum 1990 til 2000 en hann hefur undanfarin fimm ár verið í útlegð í Japan.

Forsetinn fyrrverandi ku hafa heimsótt Chile í tengslum við áform hans um að bjóða sig aftur fram til forseta í Perú en lögrega handtók hann á hóteli í Santiago að beiðni dómara í Chile. Ekki er ljóst hvað gert verður við Fujimori og hvort hann verður framseldur til Perús, en breska ríkisútvarpið hefur eftir yfirmanni Interpol í Chile að alþjóðlegar handtökuskipanir á hendur honum sem gefnar hafi verið út séu ekki gildar í Chile og því eigi Fujimori að vera frjáls ferða sinna.

Fujimori hefur meðal annars verið sakaður um aðild að drápi á 25 meintum félögum í skæruliðahreyfingu í Perú. Þá á hann einnig yfir höfði sér ákærur um spillingu í embættistíð sinni. Forsetinn fyrrverandi hefur alla tíð neitað öllum slíkum ásökunum og boðar þátttöku í forsetakosningum sem fram fara í Perú í apríl á næsta ári. Þrátt fyrir að hann hafi nýlega fengið aftur perúskt vegabréf er ólíklegt að honum verði að ósk sinni þar sem honum hefur verið bannað að bjóða sig fram í landinu til ársins 2010.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×