Erlent

Sjóræningjar á ferð við Sómalíu

Sjóræningjar réðust á skemmtiferðaskip undan ströndum Sómalíu í gær, en því tókst að komast undan áður en þeir komust um borð.

Tvö skip sigldu upp að skemmtiferðaskipinu Seabourn Spirit um hundrað og sextíu kílómetra undan ströndum Sómalíu, og fleygðu handsprengjum að því og skutu á það með hríðskotabyssu. Áhöfnin setti á fullt stím og náði á endanum að flýja, áður en sjóræningjarnir komust um borð. Þrjú hundruð farþegar voru um borð, en skipið var á leið frá Alexandríu í Egyptalandi til Mombasa í Kenýa. Farþegarnir voru að vonum skelkaðir, en skipið skemmdist lítið og aðeins einn áhafnarmeðlimur slasaðist lítillega.

Hafið undan ströndum austur-Afríku er fullt af sjóræningjaskipum og skemmtiferðaskip full af ríkum Vesturlandabúum eru vinsæl bráð ef svo má segja. Þá gildir að komast um borð, stela skartgripum og öllum verðmætum af farþegunum og krefjast svo lausnargjalds.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×