Erlent

Engin fríverslunarsamningur

Tveggja daga leiðtogafundi Ameríkuríkja lauk í gær án nokkurs samkomulags um fríverslun milli álfanna. Andstaða fimm ríkja undir forystu Hugos Chavez, forseta Venesúela réði þar úrslitum.

Það hefur lengi verið áhugamál margra Ameríkuríkja að gera fríverslunarsamning milli Norður- og Suður-Ameríku og mynda þannig stærsta fríversæunarsvæði heims. Þrjátíu og fjögur ríki eru í álfunum tveimur og höfðu tuttugu og níu þeirra lýst áhuga á að vinna að því að ljúka samningaviðræðum um það sem gengið hefur undir nafninu Free Trade Area of the Americas, eða FTAA. Eftir margra klukkustunda fundahöld sem seinkuðu lokum ráðstefnunnar um átta tíma, varð ljóst að ekki næðist samkomulag um fríverslun að þessu sinni, þar sem Brasilía, Argentína, Urugvæ, Paragvæ og Venesúela lýstu andstöðu sinni við slíkan samning og varð hvergi hnikað þrátt fyrir mikinn þrýsting, einkum frá Mexíkó og Bandaríkjunum. Þúsundir mótmælenda fyrir utan fundarstaðinn í Argentínu voru á sama máli og löndin fimm og lýsti Chavez því yfir að hann ætlaði að ,,jarða" FTAA.

Vicente Fox, forseti Mexíkó sagði rétt fyrir löndin tuttugu og níu sem styðja fríverslunarsamninginn, að halda áfram viðræðum og sniðganga þá þessi fimm sem ekki vildu vera með. Alvaro Uribe, forseti Kólumbíu hefur boðist til að reyna að ná sáttum og draga Chavez og félaga að samningaborðinu á nýju ári.

Þetta eru ekki fyrstu fríverslunarviðræðurnar sem leysast upp, því fundum Alþjóða viðskiptamálastofnunarinnar um sama efni lauk án nokkurs haldbærs árangurs bæði í Seattle 1999 og í Cancun í hittifyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×