Erlent

Chirac hvetur til stillingar í úhverfum Parísar

MYND/Reuters

Jacques Chirac, forseti Frakklands, reyndi í dag að lægja óeirðaölduna sem gengið hefur yfir úthverfi Parísarborgar undanfarna daga. Þær blossuðu upp fyrir sex dögum eftir að tveir piltar af innflytjendaættum létust af völdum raflosts þar sem þeir földu sig fyrir lögreglunni í lítilli rafstöð.

Chirac hvatti í dag deiluaðila til þess að ræða málin og sagði að ef ekki yrði bundinn endi á óeirðirnar gæti skapast hættulegt ástand, eins og hann orðaði það. Málið var rætt á ríkisstjórnarfundi í Frakklandi í dag og ákváðu bæði Villepin forsætisráðherra og Zarkozy innanríkisráðherra að fresta ferðum sínu til útlanda til þess að reyna að ná tökum á ástandinu.

Óeirðirnar hafa farið stigvaxandi og færst úr einu hverfi í annað síðustu daga, en í nótt kveiktu innflytjendur meðal annars í nærri 70 bílum í níu bæjum og hverfum við París. Lögregla hefur handtekið tugi manna í óeirðunum og notað gúmmíkúlur til þess að hafa hemil á fjöldanum, en innanríkisráðherrann Zarkozy hefur vakið reiði innflytjendanna meðal annars með því að kalla þá hyski.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×