Innlent

Þörf á löggjöf um fjölmiðla

„Þetta var alveg stórkostlegt og frábær stuðningur að fá næstum því tvo þriðju atkvæða. Ég er mjög þakklát fyrir það,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins. Hún segir fundinn hafa verið kraftmikinn, þar hafi verið bæði mikið af ungu fólki og ekki síður nýju fólki innan flokksins. Létt hafi verið yfir mannskapnum. Í ályktun fundarins um menningarmál kemur fram að flokkurinn telur brýna nauðsyn á því að koma í veg fyrir samþjöppun og einokun á fjölmiðlamarkaði og skoraði fundurinn á Alþingi að setja lög sem tryggja sjálfstæði íslenskra fjölmiðla. „Þetta er mjög skýr ályktun og eindregin. Hún er algjörlega í samræmi við það sem stefna Sjálfstæðisflokksins hefur alltaf sagt okkur, við viljum samkeppni en ekki einokun, við viljum fjölbreytni en ekki fábreytni,“ segir Þorgerður. Hún segir þessa ályktun ekki beinast gegn ákveðnum aðilum. Augljóst sé að þörf sé á rammalggjöf um fjölmiðla. „Við eigum svo eftir að sjá hvernig vinnst úr þessu. Skilaboðin frá landsfundinum í þessum efnum eru skýr og það er ágætt,“ segir Þorgerður. Hinn nýji varaformaður segir að hart hafi verið tekist á í nefndarstörfum. Tekist var á um samgönguáætlun, en hún telur að sú niðurstaða sem náðist hafi verið ásættanleg. „Þetta er stór og mikill flokkur og fólk er ekki alltaf á sama meiði. En síðan ná menn niðurstöðu.“ Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri, bauð sig fram gegn Þorgerði Katrínu. Hann hlaut rúmlega 36 prósent atkvæða og er sáttur við þá útkomu. „Ég er mjög sáttur við þann stuðning sem ég hlaut í kjöri til varaformanns og get ekki litið með neinum öðrum hætti á tölurnar en að fólk sé ánægt með mín störf á þessu sviði,“ segir Kristján Þór Júlíusson.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×