Innlent

Bíða úrlausnar mála sinna

Stríðið í Tsjetsjeníu teygir anga sína víða, meðal annars hingað til lands. Ung múslimahjón frá Tsjetsjeníu leituðu hælis hér á landi fyrir tæplega hálfum mánuði. Maðurinn segist ekki vilja berjast gegn Rússum eða nokkrum öðrum, en óttast um líf sitt, - að verða álitinn svikari af löndum sínum. Ungu hjónin heita Ruslan Bogatyrev og Sofia Juravleva. Þau koma frá höfuðborginni Grosní í Tsjetsjeníu. Sofia vildi ekki láta taka af sér myndir en staðfesti frásögn eiginmannsins. Bæði hafa misst vini og ættingja í stríðinu, Ruslan hefur misst föður sinn og bræður og hann óttast um eigið líf ef hann snýr heim. Þau hafa reynt að fá hæli annars staðar, meðal annars í Sviss, og hafa þvælst í nokkurn tíma um Evrópu á fölsuðum skilríkjum. Ruslan segir að þau hafi reynt að fá hæli í öðrum löndum áður en þau komu til Íslands. Þau reyndu að fá hæli í Sviss en fengu engin svör og þess vegna ákváðu þau að koma til Íslands þar sem þau vonast til að eitthvað verði gert í málum þeirra. Ruslan segist hvorki vilja berjast gegn Rússum né nokkrum öðrum en sem íbúí í Grosní hafi hann aðeins þrjá möguleika; að flýja úr landi, fara til fjalla og berjast gegn Rússum eða vinna með Rússum og þar með svíkja föðurland sitt, Tsjetsjeníu. Ungu múslimahjónin bera öllum hér á landi vel söguna, segja alla hafa komið vel fram, en þau kvíða þó framtíðinni. Þau segjast ekki hafa hugmynd um hvað verður um þau, hver örlög þeirra verða.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×