Innlent

Stjúpfaðir hindraði ekki afskipti

Stjúpfaðir barnaníðings í Hafnarfirði reyndi ekki að koma í veg fyrir að barnayfirvöld hefðu afskipti af málinu segir fyrrverandi tengdadóttir hans. Öðru hefur verið haldið fram. Jóna Bjarkan, fyrrverandi mágkona barnaníðingsins, Stefáns Guðna Ásbjörnssonar, segir óskiljanlegt að kerfið bregðist börnunum með þeim hætti sem raun beri vitni og reyni síðan að skella skuldinni á látinn mann sem ekki geti borið hönd fyrir höfuð sér. Félagsmálastjórinn sagði að ógerlegt hefði verið að bregðast við, meðal annars vegna afskipta Eiríks Pálssonar, fósturföður Stefáns Guðna. Jóna segir engan í fjölskyldunni virðast hafa vitað hvað þarna hafi átt sér stað, fyrir utan þá vitneskju að Stefán hafi verið drykkfelldur og ýmsir erfiðleikar hafi fylgt því. „Fjölskyldan er gjörsamlega niðurbrotin yfir öllum þessum hörmungum,“ segir Jóna.   Eiríkur Pálsson var áhrifamaður í Hafnarfirði og gegndi starfi bæjarstjóra um fjögurra ára skeið. Jóna segir móðurina hafa átt við fötlun að stríða vegna heyrnardeyfðar og verið mjög einangruð. Eiríkur hafi reynt að vernda hana því hún hafi verið börnunum sínum afar góð. Hún segir hins vegar óhugsandi að hann hafi reynt að halda hlífiskildi yfir ofbeldismanninum. Það eina sem hann gæti hafa gert væri að koma í veg fyrir að börnin yrðu tekin af móðurinni. Aðspurð hvers vegna félagsmálastjórinn skuli þá halda þessu fram segir Jóna að hann sé einfaldlega að „klóra í bakkann" vegna þess að barnaverndarnefnd hafi ekki gert það sem henni bar. Nefndin sé tvímælalaust að reyna að koma sök af sér.   Hálfsystkini ofbeldismannsins voru geðlæknir, kennari og lögfræðingur. Hvernig gat það farið fram hjá fjölskyldunni að svona illa væri statt fyrur börnunum? Jóna segist ekki hafa vitað að hann hefði verið til rannsóknar vegna brota gegn dóttur sinni og fengið dóm fyrir að nauðga þrettán ára gömlu barni. Hún hafi verið búsett ásamt þáverandi manni sínum erlendis lengstan hluta þess tíma sem misnotkunin nái yfir. Aðspurð hvernig tilfinning það sé að hafa verið svo nálægt þessum atburðum en samt svo fjarri segir Jóna hana vera hræðilega.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×