Innlent

Hlutur ríkisútgjalda eykst

Öll undangengin ár hafa fjárlög íslenska ríkisins gert ráð fyrir myndarlegum afgangi segir í tilkynningu frá Samtökum atvinnulífsins. Raunin hefur oftast orðið önnur. Samanburður á rekstrarafgangi fjárlaga og ríkisreikningi síðustu fimm ár sýnir að halli var þrjú ár og að hin tvö var afgangurinn mun minni en að var stefnt. Samtals var stefnt að 85 milljarða króna afgangi á þessum fimm árum en í reynd varð halli sem nam tæpum átta milljörðum króna. Þetta hefur haft í för með sér að aðhald ríkisfjármála hefur orðið minna en að var stefnt. Þessu til viðbótar hafa sveitarfélögin verið rekin með halla öll þessi ár þannig að opinberu fjármálin hafa verið þensluhvetjandi. Halli sveitarfélaganna jókst verulega í fyrra og nam rúmum 10 milljörðum króna sem er 1,2% af landsframleiðslu. Einnig benda samtökin á að þótt útgjöld hins opinbera séu hvað hæst í heiminum á Norðurlöndunum þá hafa þau heldur farið minnkandi í hlutfalli við landsframleiðslu á undanförnum átatug. Ísland er þar undantekning þar sem hlutur ríkisútgjaldanna hefur aukist verulega og var orðinn hærri en í Noregi á síðasta ári.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×