Innlent

Foreldrar óttast um vinnu sína

Á leikskólanum Rjúpnahæð hefur ástandið lítið batnað frá því í september, þegar ljóst varð að loka þyrfti deildum vegna manneklu. Nokkrir eldri starfsmenn hafa snúið til baka tímabundið til að bjarga því sem bjargað verður, en þeir verða bara við störf fram að áramótum. Enn vantar þó í fjórar stöður og á hverjum degi er ein deild lokuð og annarri lokað klukkan tvö. Áslaug Háfdánardóttir á tveggja ára tvíbura á leikskólanum og líka tíu mánaða gamlan son. Hún er svo heppin að eiga góða að, sem geta passað tvíburana á daginn. Það eru ekki allir svo lánsamir. Áslaug segir að skilaboð til foreldra séu að ástandið geti jafnvel versnað og jafnvel verði gripið til verkfalls. Hún undrast mjög viðbrögð Kópavogsbæjar sem hún segir að líti ekki á leikskóla sem skóla. Svo lengi hefur ástandið varað, að margir eru hættir að mæta skilningi frá vinnuveitendum. Áslaug segir að dæmi séu um fólk sem hafi í hyggju að skipta um vinnu vegna ástandsins enda séu lokanir búnar að stana í á annan mánuð. Leikskólastjórinn á Rjúpnahæð segir að nær engar umsóknir berist um störf. Boðað hefur verið til samningafundar við leiðbeinendur í næstu viku. Ef ekkert kemur út úr þeim fundi er hætta á að verkfall bresti á, sem myndi gera slæmt ástand miklu verra.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×