Innlent

Hástökkvara hótað kyrrsetningu

Javier Sotomayor, einum þekktasta íþróttamanni sögunnar, var hótað kyrrsetningu í Reykjavík í dag vegna deilna um hótelreikninga. Þessi mikli hástökkvari sækir hér mótaþing evrópska frjálsíþróttasambandsins og var þrátt fyrir allt í góðu skapi í dag, enda á hann afmæli. Javier Sotomayor er goðsögn í frjálsíþróttaheiminum. Enginn hefur stokkið oftar hærra en tvo og fjörutíu, en það hefur hann gert tuttugu og fjórum sinnum. Heimsmetið, 2,45 setti hann á heimsmeistaramótinu árið 1993 og enginn hefur komist nálægt því að slá það enn. Sotomayor hætti keppni fyrir fjórum árum, þrjátíu og fjögurra ára. Sotomayor er staddur hérlendis vegna mótaþings Evrópska frjálsíþróttasambandsins og að sögn Egils Eiðssonar hjá Frjálsíþróttasambandi Íslands varð misskilningur með hótelbókanir vegna seinnar skráningar, svo hann var bókaður á tvö hótel. Deilur risu um hver skyldi greiða reikninginn, en það hefur verið leyst - að mestu að minnsta kosti - 220 evrur, um sextán þúsund krónur standa útaf og segir það kannski sitt um fjárhagsstöðu sérsambandanna. Sotomayor vann til hárra peningaverðlauna á ferlinum, en segist ekki ríkur maður í dag. Sotomayor segir að það hljóti auðvitað að koma að því að einhver slái heimsmetið hans, þótt hann vilji ekki spá fyrir um hver það verði. Tólf ár eru langur líftími fyrir heimsmet núorðið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×