Innlent

Ríkiskaup greiði flugfélagi bætur

Kærunefnd útboðsmála hefur fellt úr gildi úrskurð vegna kæru Flugfélags Íslands á útboði Ríkiskaupa á áætlunarflugi á Íslandi. Niðurstaða kærunefndarinnar er að útboðið hafi verið villandi og ábótavant og flugfélaginu úrskurðaðar skaðabætur upp á 300.000 krónur. Nefndin leggur fyrir Ríkiskaup að bjóða þjónustuna út á ný. "Við erum ánægðir með úrskurðinn því með honum er staðfest það sem við höfum haldið fram frá upphafi, að útboðsgögn hafi verið villandi og illa unnin," segir Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands og telur ljós að framkvæma þurfi útboðið á ný. Hann segir að auk skaðabótanna, sem komi til vegna kostnaðar við að halda uppi kærunni, muni félagið fara fram á að fá endurgreiddan kostnað við gerð tilboðsins, en hann gæti numið nokkur hundruð þúsund krónum. Flugfélag Íslands bauð lægst í útboðinu, en tilboðið var hins vegar bara til eins árs í stað þriggja eins og kveðið var á um. Umleitan félagsins um að koma með leiðrétt tilboð var hafnað og því hófst kærumálið. "Við þurfum að fara yfir þetta með Vegagerðinni og stefnum að því að gera það strax á mánudaginn," sagði Júlíus S. Ólafsson, forstjóri Ríkiskaupa og taldi því fullsnemmt að skera úr um hvort endurtaka þyrfti útboðið, enda væri málið bæði umfangsmikið og tímafrekt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×