Innlent

Rannsóknarfyrirmæli ítrekuð

Embætti ríkissaksóknara hefur ítrekað rannsóknarfyrirmæli sín til lögreglunnar þar sem þess eru dæmi, jafnvel í nýlegum málum, að ekki hafi verið staðið nægilega vel að rannsókn og sönnunargögn ekki tryggð eða rannsókn dregist á langinn. Ragnheiður Harðardóttir vararíkissaksóknari sagði á opnum fundi hjá Stígamótum í dag að embættið hefði lagt áherslu á það við lögreglustjórana í landinu að lögfræðingur hjá embættunum kæmi að rannsókn nauðgunarmála á frumstigi til að tryggja sönnunargögn í málunum. Dæmi séu um dóma þar sem rannsóknarfyrirmælum embættisins hafi ekki verið fylgt þó að þau séu kennd í Lögregluskólanum. Spurð um ástæðuna taldi hún til dæmis hugsanlegt að þetta hafi gerst vegna mannabreytinga hjá lögreglunni. Ragnheiður sagði að til væri dæmi um að lögreglumaður væri tekinn úr rannsókn nauðgunarmáls til að sinna rannsókn annars máls og það þó að nauðgunarmál tilheyri alltaf forgangi í rannsókn. Hún sagðist ekki geta svarað til um hvort þar væri um manneklu hjá lögreglunni að ræða. Hún kvaðst ekki vita til þess að innra eftirlit eða rannsókn hefði farið í gang hjá lögreglunni vegna skorts á réttum vinnubrögðum. Starfsmenn ríkissaksóknaraembættisins hefðu hinsvegar velt fyrir sér að kynna rannsóknarfyrirmælin betur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×