Innlent

Fá ekki greidda fatapeninga

Mikillar óánægju gætir meðal starfsmanna sem vinna með fötluðum og þroskaheftum vegna þess að þeir fá ekki greidda fatapeninga, sem þeir eiga rétt á samkvæmt kjarasamningum. Átta og hálfur mánuður er nú liðinn síðan kjarasamningur ríkisins við SFR - stéttarfélag í almannaþágu tók gildi. Þrátt fyrir það hafa félagsliðar og stuðningsfulltrúar sem vinna á sambýlum og fleiri vinnustöðum með fötluðum og þroskaheftum ekki fengið krónu af þeim fatapeningum sem kjarasamningarnir áttu að tryggja þeim. Árni Stefán Jónsson, framkvæmdastjóri SFR, segir mikillar óánægju gæta meðal starfsmanna. Um hundrað félagsmenn komu saman í fyrradag og kröfðust þess að fá fatapeningana greidda. Upphæðin er ekki há á hvern og einn, um fimmtán hundruð krónur, en það samsvarar þó um eins prósents launahækkun. Árni Stefán segir fjármálaráðuneytið hafa bent á svæðisskrifstofur málefna fatlaðra og sagt að þær ættu að greiða fatapeninginn. Forsvarsmenn þeirra leituðu hins vegar til félagsmálaráðuneytisins og sögðust aldrei hafa fengið fjárveitingar fyrir fatapeningum. Félagsmálaráðuneytið leitaði síðan til fjármálaráðuneytisins um fjárveitingu. Í millitíðinni hefur greiðsla fatapeninga tafist og óánægja starfsmanna magnast. Árni Stefán segir að óskað hafi verið eftir fundi með Árna Magnússyni félagsmálaráðherra og verði hann kallaður til ábyrgðar fyrir greiðslu fatapeninganna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×