Innlent

Mál Albanans enn óljós

Ríkislögreglustjóri og Útlendingastofnun eru í erfiðri stöðu þar sem ekki hefur enn verið krafist framsals á Albananum sem nú situr í fangelsi hérlendis og afplánar 45 daga dóm fyrir skjalafals. Albaninn sem er með tímabundið dvalarleyfi í Grikklandi er grunaður um morð þar í landi. Hann hafði gengið laus hérlendis í nokkurn tíma eftir að hafa framvísað fölsuðum skilríkjum við komuna til landsins. Þegar dómur var kveðinn upp yfir honum kom í ljós að hann hafði réttarstöðu grunaðs manns í Grikklandi. Embætti ríkislögreglustjóra segir tvennt koma til greina í stöðu embættisins gagnvart manninum. Annars vegar brottvísun en sú krafa liggur fyrir hjá Útlendingastofnun. En brottvísun er háð því að viðtökuland sé til staðar sem vill taka við manninum. Einnig kemur til greina að framsalskrafa berist annað hvort frá Albaníu eða Grikklandi en það hefur ekki gerst ennþá. Embætti ríkislögreglustjóra hefur margoft ýtt á eftir því, en ekki fengið nein svör og furðar sig eðlilega á seinagangi og áhugaleysi bæði Grikklands og Albaníu. Ef engin svör berast og hvorugt landið vill taka við manninum þá verður honum sleppt þar sem ekki er hægt að halda honum í fangelsi hérlendis. Verði engin breyting á er viðbúið að grípa þurfi til sértakra aðgerða þar sem embættið kærir sig ekki um að hann gangi laus.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×