Innlent

Um sex milljónir vantar

Í fjárlagafrumvarpi sem nú liggur fyrir Alþingi er ekki gert ráð fyrir að endurgreiðslur á virðisaukaskatti vegna kaupa sveitarfélaga á slökkvibifreiðum og búnaði slökkviliða hækki frá fyrra ári. Er lagt til að þær muni nema 30 milljónum króna.Þetta er meðal þess sem kemur fram í yfirliti sem hag- og upplýsingasvið Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur tekið saman um þau atriði fjárlagafrumvarps sem varða fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga. Gunnlaugur Júlíusson, sviðsstjóri hag- og upplýsingasviðs, segir að á undanförnum árum hafi ekki verið hægt að borga upp umsóknir um þessar endurgreiðslur og að sambandið sé ósátt við það. Á síðasta ári þurfti að fresta endurgreiðslum á virðisaukaskatti vegna þessa verkefnis sem námu rúmum sex milljónum. „Við höfum sent fjármálaráðuneyti upplýsingar um að við teljum að fjárveiting til þessa þurfi að hækka. Það er mikil endurnýjun í gangi hjá slökkviliðum. Verkefni eru að verða fjölþættari og það er verið að bæta við verkefnum og auka við búnað. Þetta eru engar stórar fjárhæðir og því óþarfi að þær þurfi að liggja inni."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×