Innlent

Fundar með aðilum vinnumarkaðar

Ríkisstjórnin hyggst funda með forsvarsmönnum Alþýðusambandsins og aðila vinnumarkaðar um stöðu kjarasamninga. Fulltrúar ASÍ fagna aðkomu ríkisstjórnar að málinu en eru ekki sammála þeim orðum Halldórs í stefnuræðu að kjarasamningar væru ekki í hættu vegna efnahagsstjórnunar ríkisstjórnarinnar. Halldór greindi frá því á fundi með fréttamönnum í dag að hann hefði hitt forsvarsmenn Alþýðusambandsins á fundi í gærmorgun. Í framhaldinu hefði verið ákveðið að halda sameiginlegan fund með ASÍ og aðilum vinnumarkaðar vegna stöðunnar við endurskoðun kjarasamninga. Sá fundur er áætlaður næstkomandi þriðjudag.  Formaður ASÍ, Grétar Þorsteinsson, segist fagna því að ríkisstjórnin skuli ætla sér að taka þátt í umræðunum enda sé það krafa ASÍ að fleiri aðilar en launafólk og atrvinnurekendur komi að endurskoðun kjarasamninga. Þær verði vegna stöðu mála að vera þríhliða. Grétar segir enda stöðuna í efnhagsmálum beinlínis kalla á aðkomu ríkisins og á það hafi ASÍ bent áður. Athygli vekur að fyrir aðeins réttri viku lýsti forsætisráðherra því yfir í sinni að kjarasamningar væru ekki í hættu vegna stöðu efnhagsmála, kaupmáttur hefði aukist um 60% á síðustu tíu árum og skattalækkanir væru mun betri kjarabót en almennar launahækkanir. Þessu eru hvort tveggja ASÍ og Samtök Atvinnulífsins ósammála ef marka má yfirlýsingar síðustu viknu. Formaður ASÍ vill ekki ganga svo langt að segja að Halldór hafi skipt um skoðun með yfirlýsingu sinni í dag. Hann vonast þó til þess enda sé það meginforsenda þess að viðræður aðilanna þriggja gangi sem skildi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×