Innlent

Byrja með eða án Slippstöðvarmanna

Hafist verður handa við stálfóðringu fallganga Kárahnjúkavirkjunar í Valþjófsstaðarfjalli í vikunni með eða án þátttöku starfsmanna Slippstöðvarinnar, segir Sigurður Arnalds, upplýsingafulltrúi virkjunarinnar. Gjaldþrot Slippstöðvarinnar setti verkáætlun úr skorðum en síðustu daga hafa staðið yfir samningar við starfsmenn fyrirtækisins sem tekið hafa yfir rekstur þess. "Við erum að reyna að koma verkinu í gang í þessari viku, hvort sem það verður með starfsmönnum Slippstöðvarinnar eða ekki. Það væri út af fyrir sig ágætislausn ef þeir gætu komið að þessu á einhvern hátt. Sigurður segir gerð aðrennslisganganna hafa tafist nokkuð, en nú verði unnið hörðum höndum að því að vinna upp þá töf. Þá segir hann að bor 2 sem verið hefur stopp í nokkurn tíma sé kominn aftur í gang eftir að tekið var að styrkja berg fyrir framan hann með steypu og fylla upp í holrúm í berginu. "Þetta gengur ágætlega og við eigum von á að þessi vandamál leysist núna næstu daga," segir hann. Boraðar eru könnunarholur fram fyrir borinn og sementsblöndu dælt inn í misgengi til að þétta bergið ef það skyldi reynast laust í sér.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×