Innlent

Verkfalli aflýst á Skaganum

Skrifað var undir nýjan kjarasamning Starfsmanna­félags Akraness í gærkvöld. Þar með var frestað verkfalli sem annars átti að hefjast á miðnætti í kvöld. Gísli Gíslason, bæjarstjóri á Akranesi, segir að yfir daginn hafi menn velt á milli sín tilboðum, en fagnaði því að lending skuli hafa náðst. „Í meginatriðum er samningurinn innan þess ramma sem almennt hefur verið samið um, en með ýmsum tilfærslum,“ segir hann. Valdimar Þorvaldsson, formaður Starfsmannafélagsins, vildi ekki upplýsa um innihald samningsins fyrr en búið væri að kynna hann trúnaðarmönnum, en það verður gert í fyrramálið. „Svo verður félags­mönnum kynnt þetta seinni partinn og farið í atkvæðagreiðslu um samninginn á þriðjudag og miðvikudag,“ segir hann. Verði samningnum hafnað hefst verkfall á miðnætti á fimmtudag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×