Erlent

Barnahús opnað í Svíþjóð

Fyrsta Barnahúsið í Svíþjóð verður opnað í Linköping á morgun með formlegri athöfn að viðstaddri Silvíu drottningu. Svíar hafa sótt fyrirmyndina til Íslands og að því er fram kemur í tilkynningu frá Barnahúsi hefur Braga Guðbrandssyni, forstjóra Barnaverndarstofu, verið boðið að vera viðstaddur opnunarathöfina ásamt sendiherra Íslands í Stokkhólmi. Þá er gert ráð fyrir því að Bragi haldi ræðu við athöfnina og taki þátti í fréttamannafundi af þessu tilefni. Íslenska Barnahúsið hefur vakið mikla athygli á erlendum vettvangi, einkum á Norðurlöndunum. Í Linköping hefur verið miðstöð Svía í rannsókn og meðferð kynferðisbrota á börnum, svonefnd Bub-Elefanten. Þar hefur lengi verið mikill áhugi á að hrinda í framkvæmd Barnahúsi að íslenskri fyrirmynd og er það nú orðið að veruleika, ekki síst fyrir frumkvæði Silvíu drottningar sem heimsótti íslenska Barnahúsið í opinberri heimsókn sænsku kongungshjónanna hingað til lands fyrir ári. Sú heimsókn leiddi til þess að drottningin beitti sér sérstaklega fyrir stofnun hússins í Svíþjóð í kjölfarið, en drottningin er stofnandi World Childhood Foundation, sem hefur að markmiði að bæta réttindi og aðstæður barna í heiminum. Fékk drottningin því framgegnt að veitt var sérstöku fjármagni úr sjóðnum til þess að Barnahús gæti orðið að raunveruleika í Svíþjóð sem fyrst. Uppi eru áform um að setja á laggirnar fleiri Barnahús í Svíþjóð. Þá hefur norska dómsmálaráðuneytið sett á laggirnar vinnuhóp sem ætlað er að skoða það fyrirkomulag sem Barnahúsið byggir á við rannsókn og meðferð kynferðisbrota gegn börnum og hefur verið leitað liðsinnis Barnaverndarstofu í þeirri vinnu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×