Erlent

Ýkjur einkenndu fréttaflutninginn

Rangfærslur og ýkjur einkenndu fréttir bandarískra fjölmiðla af ástandinu í New Orleans og nágrenni eftir að fellibylurinn Katrín reið yfir í ágústlok. Ástæðan er skortur á samskiptum en einnig kynþáttafordómar. Þetta er fullyrt í grein í breska blaðinu The Independent í gær. Eftir að fellibylurinn Katrín gekk á land í sunnanverðum Bandaríkjunum og flóðgarðar brustu við New Orleans með þeim afleiðingum að borgin fór undir vatn fóru strax að berast óhugnanlegar sögur af ástandinu þar. Algert niðurbrot siðferðisgilda virtist hafa átt sér stað, stigamenn fóru um ránshendi og óttast var að tugir þúsunda hefðu látið lífið. Sérstaklega átti ástandið að vera slæmt í Superdome-íþróttahöllinni og í ráðstefnumiðstöð þar sem flóttamenn höfðust við innan um rotnandi lík, saur á gólfum og án matar og vatns. Þaðan bárust sögur af morðum og nauðgunum, jafnvel á börnum. Nú er hins vegar að koma í ljós að í Superdome-höllinni dóu einungis sex manns. Fjórir dóu af eðlilegum orsökum, einn af ofneyslu fíkniefna og einn framdi sjálfsmorð. Engar staðfestar heimildir eru fyrir morðum þar. Í ráðstefnumiðstöðinni áttu 24 að hafa verið myrtir, þar hafa aðeins fundist fjögur lík og virðist eitt dauðsfallið hafa verið af manna völdum. Fjögur morð voru framin í New Orleans þessa örlagaríku viku, rétt eins og hverja aðra viku í árinu. Frásagnir af gripdeildum og ránsferðum voru sömuleiðis ýktar, að minnsta kosti hefur ekki tekist að staðfesta nema brot af þeim. Indepenent tilgreinir ýmsar ástæður fyrir því að tröllasögurnar komust á kreik. Í fyrsta lagi voru fjarskiptakerfi í borginni í lamasessi af völdum fellibylsins og flóðanna sem fylgdu í kjölfarið og því áttu flökkusögur ef til vill greiðari leið en ella. Önnur ástæða er sérstakt fjölmiðlaumhverfi þar sem beinlínis er gert út á að vekja sem sterkastar tilfinningar áhorfenda við fréttaflutningnum. Í þriðja lagi hefur svo verið bent á að kynþáttafordómar hafi haft mikið að segja, að ótti hvítra velmegandi íbúa við hina þeldökku og fátækari nágranna sína hafi orðið skynseminni yfirsterkari.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×