Erlent

Hryllingssögur hafi verið ýktar

Komið hefur í ljós að hryllingssögur frá New Orleans í kjölfar þess að fellibylurinn Katrín reið yfir suðurströnd Bandaríkjanna voru orðum auknar eða jafnvel uppspuni frá rótum. Þetta þykir áfall fyrir bandaríska fjölmiðla. Fyrstu dagana eftir yfirreið fellibylsins Katrínar voru bandarískir fjölmiðlar uppfullir af frásögnum af vopnuðum gengjum sem færu um New Orleans og myrtu og nauðguðu fólki ásamt því að stela öllu steini léttara. Sagt var að lík hlæðust upp í Superdome-íþróttahöllinni og ráðstefnuhöll borgarinnar, en þar leituðu tugþúsundir manna skjóls fyrir fellibylnum. Breska blaðið Independent greinir hins vegar frá því í dag að nú, einum mánuði eftir að fellibylurinn Katrín gekk yfir, hafi nokkrir fréttamenn heimsótt hina meintu hörmungarstaði aftur. Komið hafi í ljós að hinar fjölmörgu sögur af morðum, nauðgunum og gripdeildum í höllunum hafi verið orðum auknar ef ekki algjörlega ósannar. Í Superdome-höllinni létust til að mynda sex manns, þar af fjórir af náttúrulegum orsökum. Einn lést af ofneyslu fíkniefna og annar svipti sig lífi. Þá greindi bandaríska stórblaðið New York Times frá því fyrir um mánuði að 24 hefðu látist í ráðstefnuhöllinni í New Orleans en við nánari eftirgrennslan reyndust þeir fjórir, þar af var einn sem virtist hafa verið myrtur. Þá hefur lögregla staðfest að aðeins fjögur morð hafi verið framin í vikunni eftir yfirreið Katrínar, en það er ekki fjarri meðaltali morða í borginni á viku. Independent segir að sumar ýkjusagnanna megi rekja til skorts á samskiptum enda hafi mikil ringulreið ríkt í borginni eftir hamfarirnar. Þá hafi fjölmiðlar verið of uppteknir af því af mála sem svartasta mynd af ástandinu og ekki lagt nógu mikla vinnu í að fá hluti staðfesta. Þykir þetta því nokkuð áfall fyrir fjölmiðla vestan hafs sem mega síst við því að trúverðugleiki þeirra rýrist meira, en þeir fengu sumir bágt fyrir frammistöðu sína í aðdraganda Íraksstríðsins og eftir harmleikinn í Columbine-menntaskólanum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×