Erlent

Írakar reiðir vegna dóms

Reiði braust út meðal almennings í Írak þegar kunnugt varð að Lynndie England fengi aðeins þriggja ára fangelsisdóm fyrir að misþyrma og niðurlægja írakska fanga í Abu Ghraib fangelsinu.  Ógleymanlegar ljósmyndirnar af Lynndie England við misþyrmingar sínar fóru eins og eldur í sinu um heiminn og urðu nokkurskonar táknmynd fyrir slæma meðferð Bandaríkjamanna á írökskum föngum. England baðst afsökunar á framferði sínu eftir að dómurinn var kveðinn upp en sagðist jafnframt hafa misþyrmt föngunum að undirlagi þáverandi unnusta síns, sem hlaut tíu ára dóm fyrir sinn þátt. England hefur orðið hvað þekktust þeirra níu hermanna sem ákærðir hafa verið vegna málsins og nú hafa þeir allir hlotið dóm. England þykir hafa sloppið vel, saksóknari krafðist sex ára dóms. Mikil reiði braust út meðal almennings í Írak þegar dómur var kveðinn upp. Sögðu þeir refsinguna bera vott um hræsni, England hefði að líkindum fengið mun þyngri refsingu ef hún hefði verið fundinn sek um að misþyrma Bandaríkjamönnum. Bandaríkjaher heldur enn tæplega 12 þúsund föngum í írökskum fangelsum, þar á meðal fjögur þúsund í Abu Ghraib. Mannréttindasamtök og nokkrir írakskir ráðherrar, þar á meðal dómsmálaráðherrann, hafa lýst áhyggjum sínum af því að of margir séu í haldi of lengi án dóms og laga.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×