Innlent

Foreldrar skiptast á að gæta barna

Foreldrar í Grafarvogi segja ófremdarástand ríkja í leikskólamálum. Deildum á leikskólum er lokað dag og dag í senn, og dæmi eru um að foreldrar sem eiga fleiri en eitt barn á sama leikskóla missi tvo eða fleiri daga í viku hverri úr vinnu. "Okkur barst bréf undirritað af Halldóru Pétursdóttur, leikskólastjóra á Laufskálum í Grafarvogi, þar sem því var lýst yfir að óhjákvæmilegt væri að loka deildum á leikskólanum á næstunni. Ekki hefði tekist að ráða í stöður og við það bættust starfs- og undirbúningsdagar þeirra starfsmanna sem fyrir eru," segir Ásta Marta Róbertsdóttir, en dóttir Ástu er í Laufskálum. Ásta segir að foreldrar barna á leikskólanum Laufskálum skiptist nú á að vera heima með börnum sínum og hver annars. "Þetta er náttúrlega langsamlega erfiðast fyrir einstæðar mæður," bætir Ásta við. Ásta segist vita til þess að sambærilegt ástand sé á leikskólunum Lyngheimum og Fífuborg í Grafarvogi. Í gærkvöld var haldinn fundur í Laufskálum þar sem borgarfulltrúarnir Stefán Jón Hafstein og Guðlaugur Þór Þórðarson hittu leikskólakennara og foreldra. Ekki var laust við að nokkurra vonbrigða gætti hjá foreldrum sem rætt var við eftir fundinn. Marteinn Þorkelsson foreldri sagði að skilaboðin hefðu verið að foreldrar þyrftu að standa sína plikt, Laufskáli væri ekki eini leikskólinn sem byggi við skort á starfsfólki. Hvorki náðist í Stefán Jón Hafstein né Guðlaug Þór Þórðarson vegna málsins í gærkvöld. Halldóra Pétursdóttir leikskólastjóri meinaði starfsmanni Fréttablaðsins aðgangi að fundinum og sagðist enga umfjöllun vilja um þessi mál. Hún sagði í samtali að blaðið ætti frekar að fjalla um börn að leik. "Það er enginn ávinningur af því að fjalla meira um þetta mál í fjölmiðlum en orðið er," segir Halldóra Pétursdóttir leikskólastjóri.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×