Innlent

Sprenging í kornframleiðslu

Uppskera á korni hér á landi hefur meira en tuttugufaldast frá árunum 1991-1993 og ekkert lát virðist á aukningunni. Í ár er talið að bændur hafi sáð 3300 hekturum af korni, samanborið við 150 árið 1991 og búist er við að uppskeran verði um 11.000 tonn í ár, en hún var rúm 500 tonn fyrir fjórtán árum. Nánast allt korn sem ræktað er hér á landi er bygg, en það er sú korntegund sem skemmstan tíma þarf til að þroskast. Þó er eitthvað um að bændur hafi sáð hveiti. "Þetta hefur aukist jafnt og þétt um tíu til fimmtán prósent á ári og ég býst ekki við öðru en að það haldi áfram," segir Jónatan Hermannsson, tilraunastjóri á Korpu, en þar hefur Rannsóknastofnun landbúnaðarins lengi stundað tilraunir með kornrækt. Hann á ekki von á neinum stórum stökkum. "Bæði er bændum sem rækta korn að fjölga og menn eru líka að rækta meira hver fyrir sig." Að sögn Hermanns eru um 50 prósent kornakra á Suðurlandi, rúm 30 prósent á Norðurlandi, um 15 prósent á Vesturlandi og fimm prósent á Austurlandi. Ræktunin fylgir nokkurn veginn mjólkurframleiðslunni. "Þetta er enn sem komið er fyrst og fremst notað sem fóður fyrir mjólkurkýr, bændurnir rækta þetta fyrir þær." Finnbogi Magnússon, framkvæmdastjóri búvélafyrirtækisins Jötunn Vélar á Selfossi, spáir því að kornrækt hér á landi muni margfaldast á næstu árum. "Við finnum fyrir mjög miklum áhuga á kornrækt meðal bænda," segir Finnbogi. "Til dæmis seldum við þrjár nýjar þreskivélar í ár og við erum alltaf að selja meira og meira af kornsniglum, kornvölsum og fleiru í kringum þetta." Finnbogi segir þennan áhuga ekki bundinn við bændur í einstökum landshlutum heldur finni sölumenn fyrir honum um allt landið. Þá hefur það stóraukist síðustu ár að bændur þurrki korn frekar en að súrsa það. Jónatan giskaði á að nú væri um helmingur alls korns þurrkaður, en lengi vel var nánast öll kornframleiðsla súrsuð.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×