Erlent

Ísraelar farnir af Gaza svæðinu

Hernámi Gaza-svæðisins, sem staðið hefur í 38 ár, er nú lokið að sögn Ísraela sem lokuðu herstöðvum sínum í gær og fluttu síðustu hermennina burt nú í morgun. Atkvæðagreiðsla fór fram í ríkisstjórn Ísraels í gærmorgun þar sem samþykkt var að ljúka hernáminu, en hún var þó fyrst og fremst táknræn þar sem landnemarnir 8.500 voru þegar farnir. Palestínumenn benda hins vegar á að Ísraelar ráða enn lofthelginni yfir svæðinu, skipaumferð úti fyrir ströndinni og umferð um landamærin inn á svæðið. Þeir vilja fá fulla stjórn yfir landamærunum þar sem ferðafrelsi sé nauðsynlegt til að endurreisa efnahag svæðisins. Ísraelar vilja ekki gefa stjórnina eftir, í það minnsta ekki strax, af ótta við smygl á vopnum inn á svæðið. Ísraelar hernámu Gaza-svæðið í Sex daga stríðinu árið 1967, ásamt Vesturbakkanum og austurhluta Jerúsalem.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×