Innlent

Misbrestur á skráningu mótorhjóla

Færst hefur í vöxt að fullorðnir og unglingar aki réttindalausir á óskráðum og ótryggðum torfæruhjólum. Lögreglan hefur áhyggjur af þessu en á erfitt með að koma í veg fyrir slík brot. Misbrestur er á að mótorkrosshjól séu skráð sem skildi og svo virðist sem fólk geri sér ekki grein fyrir að sérstök réttindi þurfi til að aka slíkum hjólum. Fréttastofan veit til þess að unglingar séu á óskráðum hjólum í Grafarvogi og dæmi eru um að litlu hafi munað að slys hafi orðið því afl hjólanna er gífurlegt. Árni Friðleifsson, lögreglunni í Reykjavík segir að þessum hjólum hafi fjölgað gríðarlega í sumar og á síðustu árum og hann sagði það nokkuð algengt að hjólin væru bæði óskráð og ökumenn réttindalausir. Hann gat sér þess til að fólk hreinlega viti ekki af því að hjólin þarf að skrá. Hann sagði þau vera skráningarskyld. Og hann segir dæmi um að börn og unglingar hafi ekið hjólunum en það er aðeins leyfilegt inn á afmörkuðum svæðum til mótorkrossaksturs. Það er þó aldrei leyfilegt börnum yngri en tólf ára og hann sagði að eftirlitið með þessu væri mjög erfitt og að talsvert væri ekið um á hjólunum uppi á hálendinu og lögrelan á erfitt með að fylgjast með þessu. Hann sagði hjólin geta verið stórhættulegt tæki og algengt að fullorðið fólk sé réttindalaust á hjólunum. Hann sagði eigendur hjólanna verða að skoða hvað þeir eru að gera og þá varðandi tryggingar og annað. Eigendur mótorkrosshjóla bera það gjarnan fyrir sig að mjög dýrt sé að tryggja hjólin. Formaður vélhjólaklúbbsins Víkur segir að tryggingakostnaðurinn geti farið hátt í 400 þúsund fyrir þá sem koma nýir inn og hafa engan bónus. Klúbburinn hefur verið í viðræðum við tryggingafélögin um að fá iðgjöldin lækkuð en hann talar fyrir því að ökumenn hafi tryggingar og skráningar í lagi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×