Erlent

Kanslarinn hafði betur

Gerhard Schröder, kanslari Þýskalands, og Angela Merkel, kanslaraefni Kristilega demókrataflokksins (CDU), mættust í sjónvarpseinvígi í gærkvöld, eina slíka einvíginu sem fram fer í kosningabaráttunni fyrir þýsku þingkosningarnar hinn 18. þessa mánaðar. Efnahags- og skattamál voru í brennidepli umræðunnar í einvíginu. Samkvæmt bráðabirgðaúrslitum viðhorfskönnunar sem Forschungsgruppe Wahlen gerði fyrir sjónvarpsstöðina ZDF voru mun fleiri áhorfendur þeirrar skoðunar að Schröder hefði staðið sig betur. 46 prósent aðspurðra sögðu Schröder hafa haft betur en 27 prósent Merkel. Hins vegar kom fram í niðurstöðum könnunarinnar að margir (47%) töldu Merkel hafa staðið sig betur en þeir bjuggust við fyrir fram. Fylgi kristilegu flokkanna mælist nú í skoðanakönnunum vel yfir fjörutíu prósentustigum en fylgi Jafnaðarmannaflokks Schröders rétt rúm þrjátíu prósent. Flest bendir því til að Merkel verði næsti kanslari Þýskalands.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×